Fréttir

Kjarasamningur við sveitarfélögin í höfn

Í gær, 3. júlí, undirrituðu 17 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins kjarasamning til fjögurra ára við Samband íslenskra sveitarfélaga. SGS vísaði kjaradeilunni til ríkissáttasemjara þann 20. júní og síðan þá hafa samningsaðilar fundað stíft undir verkstjórn ríkissáttasemjara í þeim tilgangi að ganga frá samningi sem báðir aðilar getað unað við. Þau fundarhöld báru loksins árangur í gær.

Félögin sem standa að samningnum eru: Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verkalýðsfélag Þórshafnar. Verkalýðsfélagið Hlíf undirritaði samninginn vegna félagsmanna sinna hjá Garðabæ, en ekki félagsmanna sem starfa hjá Hafnarfjarðarbæ. Þá dró AFL starfsgreinafélag umboð sitt til baka vegna deilu um sérákvæði við Sveitarfélagið Hornafjörð sem enn er óleyst.

Nýr samningur gildir afturvirkt frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 og verður kynntur félagsfólki á næstu dögum. Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst föstudaginn 5. júlí kl. 12:00 og lýkur mánudaginn 15. júlí kl. 09:00. Nálgast má frekari upplýsingar um samninginn og atkvæðagreiðsluna á upplýsingasíðu um samninginn sem opnuð verður um leið og atkvæðagreiðsla hefst.

Við notum vefkökur til að gera upplifunina þína á vefnum okkar sem besta.
Ef þú heldur áfram að nota síðuna, þá gerum við ráð fyrir að þú samþykkir það.