Fréttir

Kvennaráðstefna ASÍ

Kvennaráðstefna ASÍ 2023, haldin dagana 28. – 29. september, skorar á miðstjórn ASÍ
að tryggja að kynjajafnrétti gangi sem rauður þráður í gegnum alla vinnu í tengslum við
kjarasamninga í vetur. Enn fremur telur kvennaráðstefnan að miðstjórn ASÍ eigi að taka
af fullum þunga þátt í verkefninu sem lýtur að því að leiðrétta skakkt verðmætamat
kvennastarfa og innleiða jafnvirðisnálgun starfa. Í því felst endurmat á kjarasamningum
og á starfsmatskerfum þar sem matsatriði varðandi hæfni, ábyrgð og þekkingu verði
hugsuð frá grunni.

Kvennaráðstefna ASÍ 2023 telur löngu tímabært að beita kjarasamningum til að leiðrétta
sögulegt vanmat á kvennastörfum. Konur og innflytjendur eru í miklum meirihluta í þeim
stéttum sem eru með hvað lægst laun og búa við kröppust kjör. Þetta kallar á
samfélagslega leiðréttingu á mikilvægi þeirra starfa sem þessir hópar vinna.
Verkalýðshreyfingin leikur þar lykilhlutverk.

Kvennaráðstefna ASÍ hvetur aðildarfélög til að tryggja þátttöku kvenna í
samninganefndum. Kvennaráðstefna telur mikilvægt að sameiginleg vinna ASÍ við
kjarasamninga hefjist þegar í stað og það er hlutverk miðstjórnar ASÍ að tryggja aðkomu
kvenna að þeirri vinnu, sem nær umfram skammarlegt kynjahlutfall í miðstjórn.
Kvennaráðstefnan fer fram á að miðstjórn vinni tillögur fyrir næsta þing ASÍ sem kveði á
um kvennakvóta í miðstjórn, málefnanefndum og öðru starfi ASÍ. ASÍ er eftirbátur í
jafnréttismálum í íslensku samfélagi, en ætti að ganga á undan.

Kvennaráðstefna ASÍ lýsir yfir þungum áhyggjum af kjörum ræstingafólks sem greind eru
í nýrri könnun Vörðu og nýlegum fréttum af hópuppsögn og frekari útvistun starfa
ræstingafólks, að þessu sinni á vegum Grundar og Áss dvalarheimila. Útvistun
ræstingastarfa, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði, hefur búið til
þrælastétt í íslensku samfélagi, stétt sem ekki deilir vinnuaðstöðu og kjörum með fólki á
sama vinnustað. Kvennaráðstefna telur að miðstjórn ASÍ eigi að beita sér fyrir innvistun
ræstingastarfa, það er að segja að þau verði tekin til baka úr útvistun og frekari útvistanir
stöðvaðar.

Við notum vefkökur til að gera upplifunina þína á vefnum okkar sem besta.
Ef þú heldur áfram að nota síðuna, þá gerum við ráð fyrir að þú samþykkir það.